Öryggis- og heilbrigðisstefna Securitas
Vinnuvernd
Öryggi og heilbrigði starfsfólks Securitas á vinnustað er fyrirtækinu mjög mikilvægt. Þurfi á aðgerðum að halda á vinnustað, sem miða að því að fyrirbyggja slys eða heilsutjón starfsfólks, hafa þau alltaf forgang fram yfir venjuleg störf. Securitas útvegar starfsfólki sínu nauðsynlegan búnað og aðstöðu til að tryggja sem best öryggi þeirra og heilsu á vinnustað.
Mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að halda uppi virku öryggiseftirliti á vinnustöðum fyrirtækisins er að allt starfsfólk og stjórnendur vakandi fyrir öryggismálum og þeim fyrirbyggjandi aðgerðum sem þörf er á í hvert skipti. Einnig er nauðsynlegt að allir innan fyrirtækisins vinni með samstilltu átaki að öryggismálum, hvort sem um er að ræða stjórnendur eða starfsfólk á hverjum vinnustað fyrirtækisins. Aðeins með slíkri samvinnu er hægt að koma í veg fyrir slys og heilsutjón þeirra sem hjá fyrirtækinu starfa. Fyrirtækið ætlast til að starfsfólk fari heim til sín að loknu dagsverki við sömu góðu heilsu og þegar þau hófu störf.
Markmið með öryggis- og heilbrigðisstefnunni eru:
Vinnustaður án slysa
- Birta reglulega tölulegar upplýsingar um slysatíðni
Virkja öryggistilfinningu starfsmanna
- Gera starfsfólki glögga grein fyrir því að hverju öryggisnefndin er að vinna
- Tryggja að tillögur um úrbætur í öryggismálum sé sinnt
- Kynna fyrir starfsfólki að umgengni við vélar og annan búnað er hættuleg
- Gera starfsfólki ábyrga um eigið öryggi
Þjálfa starfsfólk í að bregðast rétt við atvikum sem upp geta komið
- Halda regluleg námskeið um öryggismál fyrir starfsfólk og stjórnendur
Securitas hf. noti eingöngu öruggan búnað sem er aðgengilegur og ávallt í fullkomnu lagi
- Það er krafa Securitas hf. að farið sé eftir þeim öryggisreglum sem eru í gildi
- Biluð eða skemmd verkfæri eða búnaður skal tilkynna til næsta stjórnenda
- Eingöngu má nota viðurkenndan öryggisbúnað (s.s. sýnileikafatnað og þ.h.)
- Slökkvitæki og sjúkrakassar skulu vera aðgengilegir
Fara eftir lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað
- Efni sem tengist aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað skal vera aðgengilegt fyrir allt starfsfólk
Innan Securitas er starfandi 5 manna öryggisnefnd.
Helstu verkefni nefndarinnar hafa verið áhættumat, rýmingaráætlanir, forvarnir og fræðsla auk samskipta við Vinnueftirlitið. Allir nefndarmenn hafa sótt námskeið í vinnuvernd hjá viðurkenndum þjónustuaðila t.d. Vinnueftirlitinu og eru upplýstir um hlutverk sín og ábyrgð.
Áhættumat
Skv. reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, 920/2006, 27. grein er atvinnurekendum skylt að útbúa áhættumat fyrir störf innan fyrirtækisins. Öryggisnefnd stýrir gerð áhættumats um störf og notast til þess tólið Oira Project frá European Agency for Safety and Health at Work. Fyrir einstök verkefni getur þurft að gera áhættumat verkefnis. Fyrir verklegar framkvæmdir er notast við smáforritið LV Öryggi, eða annað sambærilegt. Fyrir gæslutengd verkefni er notast við Guardtools.
Viðbragðs- og neyðaráætlanir
Skv. reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, 920/2006, 33. grein er atvinnurekendum skylt að eiga til neyðaráætlun fyrir þá vá sem upp getur komið í starfseminni. Í öryggishandbók Securitas má finna allar viðbragðs-og neyðaráætlanir Securitas.
Fræðsla starfsfólks
Öryggisnefnd heldur árleg námskeið fyrir starfsfólk Securitas og við upphaf starfs er farið yfir helstu öryggisatriði og öryggishandbók Securitas kynnt.
Öryggishandbók
Öryggishandbók Securitas er ávallt sýnileg inni á innra neti Securitas. Markmið þessarar handbókar er að kynna starfsfólki reglur og verklag sem vinna skal eftir, til að koma í veg fyrir slys á fólki, skemmdir á búnaði og mengun umhverfisins. Þessi handbók er ætluð öllu starfsfólki Securitas svo og undirverktökum þar sem við á. Með fyrirbyggjandi aðgerðum og öruggum vinnuaðferðum er komið í veg fyrir óhöpp og slys á hverjum vinnustað fyrirtækisins. Með virkri skráningu á vinnuslysum og hættulegum atvikum („næstum-því”- slysum) í starfsmannakerfi gagnagrunns fyrirtækisins, er hægt að læra af mistökum og grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana til að útiloka endurtekningu á sams konar hættulegum atvikum.
Hver og einn, sem kemur að vinnu fyrir Securitas, kynni sér innihald þessarar handbókar. Enn fremur skal fara í einu og öllu eftir því sem sett er fram í henni, ásamt því að virða landslög um vinnuvernd og hollustuhætti. Sérstaklega er bent á ákvæði um að vinna á öruggan hátt, stofna ekki sjálfum sér eða vinnufélögum í hættu, svo og um notkun persónuhlífa og góða umgengni.
Hér má nálgast Öryggis og heilbigðisstefna