ALMENNIR SKILMÁLAR

 

English – Terms and conditions

Polski – Warunki

1 INNGANGUR OG UPPLÝSINGAR UM SECURITAS

1.1 Viðskiptaskilmálar þessir gilda um öll viðskipti, samninga og tilboð Securitas um sölu eða leigu á búnaði og/eða þjónustu.

1.2 Securitas er með virðisaukaskattsnúmerið 010652 og er skráð í fyrirtækjaskrá Skattsins. Hægt er að hafa samband við Securitas í síma 580-7000, með vefspjalli eða í gegnum netfangið securitas@securitas.is. Öllum athugasemdum, spurningum eða kvörtunum vegna viðskiptaskilmála þessara eða viðskipta milli viðskiptavinar og Securitas skal beint þangað.

2 HUGTÖK

2.1 Eftirfarandi hugtök skulu hafa þá merkingu sem hér greinir í þessum viðskiptaskilmálum:

a) Securitas: Securitas hf., kt. 640388-2699, Tunguhálsi 11, 110 Reykjavík.
b) Birgi: Aðili sem sér Securitas fyrir búnaði eða hugbúnaði.
c) Búnaður: Hvers kyns hlutir, áhöld, tæki og vörur sem viðskiptavinur ýmist leigir eða kaupir af Securitas sem hluta af þjónustu á grundvelli þjónustusamnings.
d) Keyptur búnaður: Allur búnaður sem viðskiptavinur kaupir af Securitas og er tilgreindur í þjónustusamningi milli aðila. Allur keyptur búnaður er eign viðskiptavinar og á hans ábyrgð.
e) Sérpöntun: Búnaður sem er sérstaklega pantaður inn að ósk viðskiptavinar og er ekki til á lager að jafnaði.
f) Leigður búnaður: Sá búnaður sem er eign Securitas og er leigður til viðskiptavinasem hluti af þjónustu á grundvelli þjónustusamnings. Viðskiptavinum ber að skila Securitas öllum leigðum búnaði við lok samningssambands.
g) Merkingar: Límmiðar og aðrar merkingar sem gefa til kynna að tiltekið svæði sé vaktað af Securitas og Securitas lánar viðskiptavinum sínum sem hluti af þjónustu á grundvelli þjónustusamnings. Viðskiptavinum ber að skila Securitas öllum merkingum við lok samningssambands.
h) Öryggiskerfi: Sérhæfður stjórn- og/eða samskiptabúnaður sem Securitas ýmist selur eða leigir viðskiptavinum sínum á meðan samningstíma stendur og er nánar lýst í þjónustusamningi milli aðila. Öryggiskerfið er hluti af leigðum búnaði.
i) Hugbúnaður: Sérhæfður hugbúnaður sem viðskiptavinur fær aðgang að á meðan samningstíma stendur gegn greiðslu umsamins leyfisgjalds. Innifalið í leyfisgjaldi er leyfiskostnaður sem er aðkeypt þjónusta frá birgjum Securitas. Allur hugbúnaður sem Securitas veitir viðskiptavinum aðgang að er eign birgja Securitas og viðskiptavinur öðlast engin eignaréttindi yfir hugbúnaðinum. Eigandi hugbúnaðarins annast allar uppfærslur á honum.
j) Undirverktaki: Aðili sem samkvæmt samningi við Securitas tekur að sér að sinna hluta af þjónustu sem þjónustusamningur tekur til.

k) Úttekt: Kerfisbundin athugun sem Securitas framkvæmir gegn gjaldi til þess að skera úr um hvort virkni öryggiskerfisins sé í samræmi við viðeigandi kröfur og hvort virkni þess henti til þess að ná þeim markmiðum sem er stefnt að með notkun öryggiskerfisins.
l) Viðskiptaskilmálar: Þessir viðskiptaskilmálar eins og þeir eru á hverjum tíma. Nýjasta útgáfa þeirra er ávallt aðgengileg á heimasíðu Securitas.
m) Viðskiptavinur: Einstaklingur, fyrirtæki, opinber aðili eða stofnun sem hefur gert þjónustusamning við Securitas um kaup eða leigu á búnaði og þjónustu.
n) Þjónustan: Sú þjónusta sem Securitas veitir viðskiptavini og er nánar skilgreind í þjónustusamningi milli aðila.
o) Þjónustusamningur: Samningur milli Securitas og viðskiptavinar þar sem Securitas ýmist selur eða leigir viðskiptavini búnað, og/eða tekur að sér að veita viðskiptavini tilgreinda þjónustu. Lýsingu á þjónustu, afmörkun og umfangi er þá að finna í viðkomandi þjónustusamningi. Þessir viðskiptaskilmálar teljast hluti af öllum þjónustusamningum.

3 ÞJÓNUSTUGJALD OG KOSTNAÐUR

3.1 Fyrir þjónustu og/eða búnað greiðir viðskiptavinur það gjald sem tiltekið er í þjónustusamningi og önnur gjöld sem fram koma í þessum viðskiptaskilmálum. Securitas kann að ákvarða breytingar á mánaðargjaldinu til hækkunar eða lækkunar í samræmi við grein 21 .

3.2 Viðskiptavinur á rétt á að falla frá vörukaupum án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 daga nema þegar um er að ræða sérpöntun. Hvorki er hægt að skila sérpantaðri vöru, fá hana endurgreidda né fá henni skipt í aðra vöru.

3.3 Verði ágreiningur um fjárhæð reikninga getur viðskiptavinur ekki neitað greiðslu á þeim hluta sem er óumdeildur. Viðskiptavini ber að upplýsa Securitas um hvers konar athugasemdir við reikninga þegar í stað og eigi síðar en innan sjö daga frá útgáfu reiknings.

3.4 Ef greiðslur eru ekki inntar af hendi á eindaga reiknast á þær dráttarvextir skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá gjalddaga ásamt vanskilakostnaði.

3.5 Innheimta

a) Sú aðferð sem Securitas velur að nota við frum- og milliinnheimtu vegna vanskila, þ.e. birting innheimtuviðvörunar og milliinnheimtubréfa, fer eftir viðskiptasambandi Securitas og viðskiptavinar. Á það við hvort sem um er að ræða innheimtu sem
framkvæmd er af hálfu Securitas eða af hálfu innheimtufyrirtækis eða lögmanns sem Securitas felur að annast innheimtuna.
b) Viðskiptavinur ber ábyrgð á skráningu símanúmers, heimilisfangs, netfangs og því að tilkynna þær breytingar til Securitas sem hann kann að gera á tengiliðaupplýsingum sínum.
c) Hafi viðskiptavinur vanrækt þá skyldu sína að uppfæra tengiliðaupplýsingar ber hvorki Securitas né innheimtuaðili ábyrgð á því að tilkynningar berist ekki viðskiptavini, né því tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þess að framangreind samskiptaleið var notuð.
d) Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir því að tengiliðaupplýsingum kann að vera miðlað til þriðja aðila, þ.e. innheimtuaðila, í framangreindum tilgangi.
e) Viðskiptavinur gerir sér grein fyrir að frum- og milliinnheimtukostnaður er innheimtur í samræmi við reglugerð sem er í gildi á hverjum tíma.

3.6 Gjöld

a) Sé samið um gjöld í þjónustusamningi greiðast þau fyrirfram og er gjalddagi og eindagi tilgreindur á reikningi, nema um annað sé samið.
b) Sé ekki annað tiltekið í þjónustusamningi taka gjöld breytingum samkvæmt launavísitölu til verðtryggingar, með grunnvísitölu í sama mánuði og dagsetning undirritaðs þjónustusamnings og breytist með henni til hækkunar eða lækkunar, þó aldrei lægri en grunnvísitalan segir til um.
c) Gjöldum er skipt í þrjá liði, (i) þjónustugjald, (ii) leyfisgjald og (iii) leigu á búnaði.
d) Innifalið í þjónustugjaldi er fjarvöktun og úrvinnsla á aðvörunar- og neyðarboðum, rekstur boðleiða öryggiskerfisins, rekstur vefviðmóts og smáforrits ásamt hugbúnaðaruppfærslum þess hugbúnaðar, sem og þeir þjónustuliðir sem eru sérstaklega listaðir upp í þjónustusamningi. Sé þjónustuliður ekki sérstaklega tilgreindur í þjónustusamningi sem hluti af þjónustunni innheimtir Securitas sérstakt gjald fyrir þá þjónustu í samræmi við verðskrá Securitas hverju sinni.
e) Innifalið í leigu á búnaði er leiga og viðhald á hinum leigða búnaði.

3.7 Stofnkostnaður

Sé samið um stofnkostnað skal slíkur kostnaður greiddur við upphaf viðskipta eins og er nánar tiltekið í þjónustusamningi.

3.8 Ferðakostnaður

a) Alla þjónustu sem framkvæmd er af Securitas skal viðskiptavinur greiða fyrir, akstur, dagpeninga og annan ferðakostnað í samræmi við verðskrá Securitas eins og hún er á hverjum tíma.
b) Nákvæma útlistun á þjónustusvæði Securitas má nálgast á heimasíðu fyrirtækisins.

3.9 Annar kostnaður

Securitas býður uppá útkallsþjónustu. Þjónustugjald er innheimt fyrir útköll samkvæmt tveimur gjaldliðum, annars vegar fyrir útköll innan hefðbundins opnunartíma Securitas og hins vegar fyrir forgangsþjónustu samkvæmt verðskrá. Þessu til viðbótar er Securitas heimilt að innheimta allan kostnað vegna útkalla sem hægt er að rekja til rangrar eða gáleysislegrar
umgengni á vegum viðskiptavinar.

4 ÞJÓNUSTA

4.1 Með því að stofna til viðskiptasambands við Securitas samþykkir viðskiptavinur að Securitas megi eiga samskipti við hann með rafrænum hætti, t.d. í gegnum netfang.

4.2 Securitas býður viðskiptavinum sínum upp á fjarvöktun á öryggiskerfinu, ásamt viðbragðsþjónustu á þjónustusvæði Securitas hverju sinni, með sólarhringsvöktun allan ársins hring.

4.3 Boðleið öryggiskerfisins til stjórnstöðvar Securitas er í gegnum almenn farsímakerfi á Íslandi. Boðleiðin er órjúfanlegur hluti af öryggiskerfinu og eign Securitas. Viðskiptavini er ekki heimilt að samnýta þá boðleið með neinum hætti.

4.4 Krefjist búnaður Securitas að til staðar sé tenging við internet þá skal viðskiptavinur útvega þá boðleið og tryggja að hún sé ávallt virk. Viðskiptavinur ber allan kostnað tengdum slíkri boðleið. Viðskiptavinur ber ábyrgð á og ber allan kostnað af stillingum á interneti, til dæmis
að festa IP tölur. Ef búnaður krefst þráðlausrar tengingar ber viðskiptavinur ábyrgð á að tryggja að sambandsstyrkur sé nægilegur miðað við kröfu búnaðar og ber hann allan kostnað af því.

4.5 Í sumum tilvikum getur viðskiptavinur stýrt öryggiskerfi gegnum vefviðmót og smáforrit (app). Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að allir notendur smáforritsins séu með nýjustu útgáfu þess hverju sinni.

4.6 Vakin er sérstök athygli á því að gæludýraskynjarar hafa minni næmigetu en hefðbundnir skynjarar og getur það leitt til þess að öryggiskerfi fari of seint í gang eða fari ekki í gang við hugsanleg innbrot.

5 SKYLDUR VIÐSKIPTAVINA OG SECURITAS

5.1 Viðskiptavinur skal veita Securitas fullnægjandi aðgang að aðstöðu sinni, og eftir atvikum birgjum eða undirverktökum, svo Securitas sé kleift að sinna skyldum sínum samkvæmt þjónustusamningi. Viðskiptavinur skal jafnframt veita Securitas nauðsynlegar og réttar upplýsingar, leiðbeiningar og/eða fyrirskipanir svo Securitas geti fullnægt skyldum sínum.

5.2 Securitas skal framkvæma þá þjónustu sem kveðið er á um í þjónustusamningi í samræmi við þá lýsingu og umfang sem þar er kveðið á um. Securitas ber ekki skylda til þess að veita viðskiptavini þjónustu umfram það sem kveðið er á um í þjónustusamningi. Securitas áskilur sér þann rétt til að neita að framkvæma þjónustu hvenær sem er.

5.3 Ef viðskiptavinur selur keyptan búnað til þriðja aðila ber Securitas ekki skylda til þess að veita þeim aðila þjónustu sem tengist búnaðinum, nema sérstaklega sé samið um annað.

5.4 Viðskiptavinur skal ekki misnota þá þjónustu sem Securitas veitir honum með nokkrum hætti. Hér undir fellur til dæmis þegar viðskiptavinur að tilefnislausu veldur því vísvitandi að öryggiskerfið fari í gang eða með öðrum hætti veldur óeðlilegu miklu álagi á öryggiskerfið, búnað og/eða þjónustu.

5.5 Við staðsetningu á búnaði skal viðskiptavinur hafa í huga að búnaður getur verið viðkvæmur fyrir veðri og ekki allur búnaður er ætlaður til notkunar utanhúss. Viðskiptavinur skal fylgja leiðbeiningum Securitas um staðsetningu á búnaði.

6 UPPSETNING

6.1 Securitas áætlar tímavinnu við uppsetningu á búnaði fyrir viðskiptavin. Áætlun miðast við, nema að annað sé tekið fram, að allur búnaður sé staðsettur í að hámarki 3 metra lofthæð, búið sé að leggja viðeigandi strengi fyrir öllum búnaði, hægt sé að vinna verk samfellt í einni lotu og ekki þurfi sérstök verkfæri fyrir utan þau sem tilgreind eru í kjarasamningi Samtaka
atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar, eins og hann er á hverjum tíma.

6.2 Securitas innheimtir sérstakt gjald af viðskiptavinum vegna uppsetningar á búnaði sem þarf að staðsetja í meira en 3 metra lofthæð, ef það þarf að leggja strengi fyrir myndavélar og öryggisnema, ef ekki er unnt að vinna verk samfellt í einni lotu vegna atvika sem Securitas eða aðilar á vegum Securitas bera ekki ábyrgð á, og ef nota þarf sérstök verkfæri sem eru ekki tilgreind í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands hins vegar, eins og hann er á hverjum tíma. Að sama skapi innheimtir Securitas sérstakt gjald af viðskiptavinum ef leigja þarf lyftara eða leggja út fyrir öðrum kostnaði vegna uppsetningar á búnaði.

6.3 Í samráði við viðskiptavini sem eru með virkan fjargæslusamning og viðeigandi búnað setur Securitas upp sérstakar merkingar sem gefa til kynna að svæðið sé vaktað af Securitas.

6.4 Ef viðskiptavinur óskar eftir því að Securitas færi búnað og/eða skipti um merkingar skal viðskiptavinur greiða sérstaklega fyrir þá þjónustu.

7 BREYTINGAR Á HÚSNÆÐI

7.1 Viðskiptavinur skal tilkynna með hæfilegum fyrirvara allar breytingar og/eða framkvæmdir á því húsnæði sem öryggiskerfið er staðsett í ef slíkar breytingar og/eða framkvæmdir geta haft áhrif á virkni kerfisins eða á annan hátt geta skipt máli við framkvæmd þjónustusamnings.

7.2 Viðskiptavinur má á engan hátt hindra aðgengi að öryggiskerfi, t.d. með hlíf eða öðrum tálmunum.

7.3 Óski viðskiptavinur eftir að breyta öryggiskerfinu, eftir að uppsetningu þess er lokið, skal viðskiptavinur greiða fyrir þá vinnu samkvæmt verðskrá Securitas hverju sinni.

7.4 Glatist fjarstýring sem tilheyrir öryggiskerfinu (ef við á) skal viðskiptavinur tilkynna Securitas það tafarlaust enda veikir það öryggi á gæslustað.

8 AFHENDING LYKLA OG HEIMILD TIL NOTKUNAR

8.1 Securitas skal, í samráði við viðskiptavin, taka á móti og geyma lykla að því húsnæði viðskiptavinar sem öryggiskerfi er staðsett í og er vaktað. Lyklarnir eru varðveittir á starfsstöð Securitas. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að Securitas sé ávallt með lykla sem ganga að hinu vaktaða húsnæði og skal afhenda Securitas nýtt sett af lyklum sé þess þörf, til dæmis ef skipt er um lás á samningstímabilinu.

8.2 Securitas er heimilt að nota lyklana þegar boð berast frá öryggiskerfi og lykilorð fæst ekki uppgefið í símtali eða ef öryggiskerfi hættir að senda prófunarboð. Þá er Securitas heimilt að afhenda lögreglu lykla gegn framvísun dómsúrskurðar eða að fengnu sannanlegu samþykki
viðskiptavinar.

9 AÐVÖRUNARBOÐ, NEYÐARBOÐ OG ÚTKÖLL

9.1 Securitas tekur á móti aðvörunar- og neyðarboðum frá öryggiskerfinu og kallar til og sendir öryggisvörð á útkallsstað samkvæmt gildandi vinnureglum stjórnstöðvar Securitas hverju sinni. Þá hefur Securitas einnig samband við viðskiptavin eða tengilið hans sem getur afþakkað öryggisvörð á útkallsstað með því að gefa upp lykilorð. Í sumum tilfellum fá viðskiptavinir jafnframt tilkynningu um aðvörunar- og neyðarboð í smáforriti og getur jafnframt afþakkað útkall þar.

9.2 Þegar öryggisvörður kemur á útkallsstað skal hann kanna orsakir boða frá öryggiskerfinu og gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt verkferlum Securitas.

9.3 Útkallsþjónusta er í boði allan sólarhringinn alla daga ársins á þjónustusvæðum Securitas.

10 EIGNARÉTTUR, ÁHÆTTUSKIPTI OG SKYLDUR VIÐ LOK SAMNINGSSAMBANDS

10.1 Securitas heldur eignaréttindum á leigðum búnaði og merkingum sem er afhentur viðskiptavini í tengslum við veitta þjónustu.

10.2 Securitas heldur eignaréttindum á keyptum búnaði þar til viðskiptavinur hefur greitt fyrir hann að fullu. Þrátt fyrir að viðskiptavinur kaupi búnað eignast viðskiptavinur ekki nein hugverkaréttindi sem tengjast búnaðinum, til dæmis hugverkaréttindi yfir tölvuforritum og tölvukóðum né eignarétt yfir merkingum.

10.3 Securitas heldur jafnframt eignaréttindum á öllum öðrum búnaði sem viðskiptavini er færður í hendur í tengslum við veitta þjónustu, sama hvaða nafni hann nefnist, nema viðskiptavinur kaupi búnaðinn og greiði fyrir hann að fullu.

10.4 Sé um að ræða sölu á búnaði skulu áhættuskipti vera við afhendingu eða uppsetningu. Búnaður telst afhentur þegar viðskiptavinur hefur tekið á móti honum eða um leið og móttaka var möguleg.

10.5 Við lok samnings skal viðskiptavinur afhenda Securitas allan búnað í eigu Securitas, ásamt merkingum, og veita alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til að endurheimta hann, þ.m.t. með þeim hætti sem kveðið er á um í grein 5.1 .

10.6 Ef viðskiptavinur veitir ekki aðgengi að búnaði og merkingum í eigu Securitas við lok samnings, er Securitas heimilt að gefa út mánaðarlegan reikning á hendur viðskiptavini fyrir afnot af búnaði og merkingum samkvæmt gildandi verðskrá Securitas hverju sinni þar til búnaði og merkingum hefur verið skilað til Securitas. Þegar leigðum búnaði og merkingum hefur verið skilað til Securitas hvílir skylda á viðskiptavini til þess að greiða útgefna reikninga fyrir afnotum á tímabilinu frá því að samningssambandinu lýkur og þar til búnaði og merkingum hefur verið skilað.

10.7 Ef leigðum búnaði er stolið af viðskiptavini eða hann týnist á samningstímanum ber viðskiptavini að láta Securitas vita eins fljótt og auðið er. Securitas lokar þá fyrir þjónustuna. Ef leigður búnaður finnst ekki eða er ekki skilað innan hæfilegs tíma að mati Securitas er Securitas heimilt að gefa út reikning á hendur viðskiptavini fyrir kaupum á umræddum búnaði samkvæmt gildandi verðskrá Securitas hverju sinni.

11 ÁBYRGÐ SAMNINGSAÐILA OG TRYGGINGAR

11.1 Ábyrgð

a) Ábyrgð á keyptum búnaði sem einstaklingar kaupa fer eftir lögum um neytendakaup og ábyrgð á keyptum búnaði sem lögaðilar kaupa fer eftir lögum um lausafjárkaup, eins og þessi lög eru á hverjum tíma. Ábyrgð á nýjum búnaði sem er seldur til einstaklinga er 2 ár en ábyrgð á búnaði sem er seldur til lögaðila er 1 ár.
b) Ábyrgð á keyptum búnaði nær ekki til eðlilegs slits eða notkunar á búnaði. Ábyrgð fellur úr gildi ef aðrir en starfsmenn Securitas hafa átt við búnaðinn án samþykkis. Ábyrgð nær ekki til bilana eða tjóns af utanaðkomandi orsökum, svo sem veðurs, eldsvoða, vatns, þjófnaðar, slyss, verkfalla, rafmagnsbilunar eða spennubreytinga. Ábyrgð nær ekki til búnaðar sem seldur er notaður, nema um slíkt sé samið sérstaklega áður en gengið er frá kaupum.
c) Securitas ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða við flutning búnaðar hjá þriðja aðila. Ef viðskiptavinur vill tryggja búnað sérstaklega fyrir flutning þarf það að koma skýrt fram við kaup.
d) Securitas ber ekki ábyrgð á því að lagfæra göt, mála eða fjarlæga önnur ummerki eftir merkingar og búnað þegar hann er fjarlægður.

11.2 Bótaskylda

a) Bótaskylda Securitas takmarkast við beint tjón sem viðskiptavinur kann að verða fyrir í tengslum við samning aðila. Bótaábyrgð Securitas nær þannig ekki til óbeins eða afleidds tjóns viðskiptavinar eða þriðja aðila. Þannig ber Securitas auk þess ekki bótaábyrgð af þeirri ástæðu einni saman að virkni þjónustu og/eða búnaðar bar ekki þann árangur sem væntingar stóðu til eða ef bilanir verða í búnaði sem ekki verða
raktar til Securitas eða vegna rangrar notkunar viðskiptavinar af búnaði eða þjónustu Securitas.
b) Bótaskylda Securitas takmarkast jafnframt við það tjón sem viðskiptavinur verður sannanlega fyrir vegna ásetnings eða stórfellds gáleysis Securitas.
c) Rifti Securitas samningi aðila vegna vanefnda viðskiptavinar, skal Securitas ekki vera bótaskylt vegna tjóns sem kann að verða vegna riftunarinnar.
d) Bótaábyrgð Securitas takmarkast að hámarki við þá fjárhæð, sem nemur því gjaldi, sem viðskiptavinur hefur greitt Securitas samkvæmt þjónustusamningi á síðustu tólf mánuðum áður en tjónsatburður átti sér stað.
e) Að öðru leyti fer um bótaábyrgð skv. almennum reglum skaðabótaréttar.

11.3 Tryggingar

Viðskiptavin er ljóst að sú þjónusta sem Securitas veitir er ekki þess eðlis að vátryggingar, t.d. bruna-, vatnstjóns-, tækja-, rekstrarstöðvunar-, innbrots- og/eða aðrar tryggingar og ábyrgðartryggingar séu ónauðsynlegar fyrir viðskiptavin. Viðskiptavin ber því að vátryggja hagsmuni sína og eigur eftir þörfum hverju sinni.

12 VIÐHALD OG VIÐGERÐIR

12.1 Nema um annað sé samið skal Securitas bera ábyrgð á almennu viðhaldi á leigðum búnaði vegna hefðbundinnar og eðlilegrar notkunar. Viðskiptavinir sem eru einstaklingar bera ábyrgð á rafhlöðuskiptum samkvæmt notkun. Viðskiptavinir sem eru hvort sem er einstaklingar eða lögaðilar bera ábyrgð á öllu viðhaldi og rekstri á keyptum búnaði. Securitas getur aðstoðað viðskiptavini með rafhlöðuskipti.

12.2 Í samráði við viðskiptavin framkvæmir Securitas úttekt á virkni öryggiskerfisins.

12.3 Allar uppfærslur á virkni hugbúnaðar eru framkvæmdar af birgjum Securitas. Þeir viðskiptavinir sem eru með staðbundinn hugbúnað bera ábyrgð á uppfærslu sjálfir með aðstoð Securitas.

12.4 Allar viðgerðir á keyptum og/eða leigðum búnaði skulu framkvæmdar af Securitas eða aðilum á vegum Securitas og skal öðrum aðilum óheimilt að framkvæma viðgerðir á búnaði án samþykki Securitas.

12.5 Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir öllum skemmdum og óheimilum breytingum á leigðum búnaði. Ef rekja má viðgerðarkostnað á leigðum búnaði til rangrar eða slæmrar meðferðar er Securitas heimilt að innheimta þann kostnað sérstaklega samkvæmt gildandi verðskrá.

12.6 Viðhaldsþjónusta skal almennt fara fram á dagvinnutíma samkvæmt skilgreiningu Securitas hverju sinni. Ef viðskiptavinur óskar sérstaklega eftir viðhaldi utan dagvinnutíma er gjald innheimt skv. verðskrá.

12.7 Telji viðskiptavinur leigðan eða keyptan búnað vera gallaðan eða ekki virka sem skyldi skal viðskiptavinur hafa samband við Securitas varðandi frekari greiningu. Securitas áskilur sér rétt til að sannreyna hvort um galla sé að ræða. Þá skal Securitas ákveða hvernig bregðast skuli við gallanum, t.d. hvort endurgreiða skuli búnað, gera við hann eða skipta honum út fyrir ógallaðan búnað.

13 TENGILIÐIR

13.1 Viðskiptavinur skal tilnefna þrjá eða fleiri tengiliði sem Securitas getur sett sig í samband við ef nauðsyn krefur.

13.2 Breytingu á tengiliðum skal tilkynna Securitas með sannanlegum hætti umsvifalaust.

13.3 Viðskiptavinir ber að útnefna rétta tengiliði fyrir aðgerðir sem hafa áhrif af þjónustu hans.

14 VANSKIL OG RIFTUN

14.1 Vanræki annar hvor aðili samningsskyldur sínar eða verður ókleift að efna þær getur hvor aðili um sig rift viðskiptasambandinu án fyrirvara með tilkynningu þess efnis sem skal berast með sannarlegum hætti annað hvort skriflega eða í tölvupósti. Við riftun er Securitas heimilt rjúfa tengingu við stjórnstöð, óvirkja smáforrit og/eða taka niður og fjarlægja merkingar
og/eða leigðan búnað á kostnað viðskiptavinar.

15 GILDISTÍMI OG LOK SAMNINGA MILLI AÐILA

15.1 Samningar milli Securitas og viðskiptavina taka gildi við undirritun þeirra.

15.2 Uppsögn og riftun samninga leiðir sjálfkrafa til uppsagnar eða riftunar allra viðauka, nema um annað sé sérstaklega samið.

15.3 Uppsögn eða riftun eins viðauka skal engin áhrif hafa á gildi annarra viðauka eða samninginn að öðru leyti, að því tilskildu að samningsaðilar uppfylli að öðru leyti skilmála og samningsins og annarra viðauka.

15.4 Uppsagnarfrestur samninga Securitas við viðskiptavini er einn mánuður, nema samið sé um annað.

15.5 Við samningslok skal viðskiptavinur nálgast lykla sem hafa verið í vörslu Securitas.

15.6 Lyklar sem ekki eru sóttir við samningslok verður fargað þremur mánuðum eftir samningslok.

16 PERSÓNUVERND OG VINNSLA PERSÓNUUPPLÝSINGA

16.1 Þjónusta Securitas kann að fela í sér vinnslu persónuupplýsinga. Vinnsla Securitas á persónuupplýsingum skal uppfylla skilyrði persónuverndarlaga. Um vinnsluna gildir persónuverndarstefna Securitas sem er aðgengileg á vefsíðu Securitas (https://www.securitas.is/personuverndarstefna.html).

16.2 Securitas er vinnsluaðili og viðskiptavinur ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga fyrir vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem verða til í búnaði sem Securitas hefur aðgang að vegna þjónustu sinnar.

17 ÓVIÐRÁÐANLEG ATVIK (FORCE MAJEURE)

17.1 Komi upp óviðráðanleg staða vegna ófyrirséðra orsaka (force majeure), t.d. eldsvoða, verkfalla, náttúruhamfara, stríðsástands, hryðjuverka eða truflunar á fjarskiptum er heimilt að víkja frá ákvæðum skilmála þessa.

18 UNDIRVERKTAKAR

18.1 Securitas er heimilt að útvista þjónustu sinni að hluta eða í heild til undirverktaka.

18.2 Að öðru leyti skal ábyrgð undirverktaka afmarkast við ákvæði greinar 11.

18.3 Undirverktökum er heimilt að hafa samband við viðskiptavin með tölvupósti eða í síma í tengslum við umsamda þjónustu.

19 FRAMSAL RÉTTINDA

19.1 Viðskiptavini skal óheimilt að framselja réttindi sín samkvæmt samningi aðila án fyrirfram skriflegs samþykkis Securitas.

20 ÚRLAUSN ÁGREININGSMÁLA

20.1 Um viðskiptaskilmálana gilda íslensk lög.

20.2 Securitas og viðskiptavinur skulu leitast við að ná sáttum ef upp kemur ágreiningur um framkvæmd eða túlkun viðskiptaskilmálanna.

20.3 Nái aðilar ekki sáttum kann viðskiptavinur að eiga rétt á úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa (www.kvth.is) vegna ágreiningsins.

20.4 Rísi mál út af viðskiptaskilmálunum eða þjónustusamningi skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

21 ANNAÐ

21.1 Ef ósamræmi er á milli þjónustusamnings og viðskiptaskilmála skulu viðskiptaskilmálarnir ganga framar, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

21.2 Securitas áskilur sér rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum og verðskrá hvenær sem er. Skal viðskiptavini tilkynnt um slíkar breytingar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Nýjasta útgáfa viðskiptaskilmálanna er ávallt aðgengileg á heimasíðu Securitas.

21.3 Ef breytingar á viðskiptaskilmálum þessum eru óverulegar kann að vera að viðskiptaskilmálarnir verði eingöngu birtir á heimasíðu Securitas.

21.4 Viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingar á þessum viðskiptaskilmálum ef hann greiðir fyrir þjónustuna næstu mánaðamót eftir að breytingar taka gildi.