Tegundir IP myndavéla

Inni- og útimyndavélar
Myndavélar til notkunar utanhúss þurfa að vera með dag/nótt virkni.  Þegar birtustig fer niður fyrir ákveðið stig skiptir myndavélin frá lit yfir í svart/hvíta mynd. Myndavél í svart/hvítum ham er mun ljósnæmari en myndavél í lit og nær hún því betri myndum í myrkri. Einnig er mikilvægt að myndavélarnar séu í húsi sem verndar þær gegn veðri og vindum. Vegna breytilegs birtustigs utandyra er æskilegt að velja myndavél með sjálfvirku ljósopi (Auto Iris). Slík vél ræður betur við breytilegt birtustig.

IP Öryggisvélar SecuritasBoxmyndavélar
Elsta og algengasta form eftirlitsmyndavéla eru svokallaðar boxmyndavélar sem samsettar eru af myndavélinni sjálfri og tilheyrandi linsu. Í sumum tilvikum getur verið hentugt að hafa eftirlitsmyndavélina eins áberandi og hægt er. Ef svo er þá er boxmyndavél besta valið þar sem bæði myndavélin og sjónarhorn hennar eru mjög sýnileg. Annar kostur boxmyndavéla er að hægt er að skipta um linsur á þeim fyrir mismunandi sjónarhorn. Hægt er að fá boxmyndavélar bæði til notkunar innan- og utandyra.


IP Myndavélar SecuritasHálfkúlumyndavélar
Hálfkúlumyndavélar (Dome) hafa náð miklum vinsældum á undanförnum árum. Helsti kostur þess konar myndavéla er hversu fyrirferðarlitlar og lítt áberandi þær eru. Meðal annarra kosta má nefna að erfitt er sjá hvert sjónarhorn myndavéla er og fiktvörn þar sem erfitt er að komast að myndavélinni til að snúa henni eða eiga við hana. Einn ókostur hálfkúlumyndavéla er að yfirleitt er ekki hægt að skipta um linsu, og ef það er hægt þá er úrval linsa ekki mikið. Oft eru þessar myndavélar boðnar með stillanlegum linsum (Varifocal Lens) sem hefur þann kost að stilla má sjónsvið myndavélarinnar. Hægt er að hafa hálfkúlumyndavélar í mismunandi hýsingu, t.d. skemmdaverkavarðar og til notkunar utanhúss. Ef festa á hálfkúlumyndavél beint á vegg er mikilvægt að hún sé þriggja ása (3 – axis) því annars verður sjónsvið myndavélarinnar skakkt.

Hreyfanlegar myndavélar
Þessi gerð myndavéla býður upp á þann möguleika að vera fjarstýrt, þá annað hvort handvirkt eða sjálfvirkt. Til eru bæði vélrænar hreyfanlegar myndavélar og óvélrænar hreyfanlegar myndavélar. Vélrænar hreyfanlegar myndavélar eru til bæði sem hálfkúlumyndavélar og sem boxmyndavélar á hreyfanlegum fæti. Kostur þess að nota hreyfanlegar hálfkúlumyndavélar er sá að þær bjóða upp á 360° hreyfimöguleika sem boxmyndavélar á hreyfanlegum fæti hafa ekki.

Hreyfanlegar myndavélar hafa yfirleitt aðdrátt upp á 10x til 35x. Þær geta náð yfir mjög mikið vaktsvæði og getur ein hreyfanleg myndavél vaktað samsvarandi svæði og allt að 10 fastar myndavélar gera. Hreyfanlegar myndavélar henta mjög vel þar sem fylgja þarf eftir hreyfanlegum hlutum, bílum og jafnvel til að fylgja eftir fólki. Helsti ókostur hreyfanlegra myndavéla er sá að aðeins er hægt að vakta hluta svæðisins í einu, sem skilur aðra hluta svæðisins óvaktaða. Hreyfanlegar myndavélar þurfa stjórnanda eða þær eru fyrir fram forritaðar til að skoða vaktsvæðið. Þessi gerð véla hentar því mjög vel til notkunar í mönnuðum vaktmiðstöðvum. Vélarnar henta bæði til notkunar innan- og utanhúss. Óvélrænar hreyfanlegar myndavélar notast við háupplausnarmyndflögu og gleiðlinsur með sjónarhorn frá 100° upp í 360°. Með þessum myndavélum er hægt að þysja inn (Zoom) í myndina án vélrænnar hreyfingar. Kostir slíkra myndavéla er að ekkert slit er í hreyfanlegum hlutum. Venjulegur aðdráttur þessara myndavéla er algengur um 3x aðdráttur.