Verðbreyting á öryggishnappi

Öryggishnappur SecuritasSecuritas hefur í nær 30 ár starfrækt þjónustu sem ber nafnið Öryggishnappur Securitas. Þessi þjónusta hefur gert það að verkum að fjöldi fólks getur búið lengur heima hjá sér í skjóli þess öryggis sem hnappurinn veitir.

Sjúkratryggingar Íslands hafa greitt hluta þjónustugjalds fyrir öryggishnappinn frá því hann kom á markaðinn og þar sem Securitas er mikið í mun að sem flestir eigi kost á að nýta sér öryggishnappinn hefur fyrirtækið verðlagt hann í hófi og ekki hækkað þjónustugjaldið til hnappþega síðustu 12 árin.

Nú ber svo við að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands fyrir þjónustuna lækkaði um 1.200 kr. í apríl síðastliðnum. Securitas á ekki annarra kosta völ en að hækka gjaldið til hnappþega fyrir öryggishnappinn sem nemur þessari lækkun á hlut SÍ. Hnappþegi þarf því að greiða 2.550 krónur á mánuði fyrir þjónustuna. Securitas þykir þetta miður en vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að nýta sér þjónustuna áfram. Breytingin tekur gildi frá og með 1. október 2014. 

öryggishnappur Securitas