Númeruð brunaviðvörunarkerfi

Brunavarnakerfi SecuritasNúmerað brunaviðvörunarkerfi eða svo kallað vistfangskerfi (analog) er þannig uppbyggt að allir skynjarar og búnaður tengdur brunastöðinni fær ákveðið vistfang. 

Stöðin getur því tilgreint hvaða skynjari gefur eldboð og þannig gefið upp nákvæma staðsetningu eldboða. Hægt er að stilla næmni og hugsanlega tímaseinkun fyrir hvern skynjara. Skynjarar, handboðar og hljóðgjafar sem tengjast hverri slaufu geta verið allt að 318. Ekki er nauðsynlegt að leggja slaufur eftir ákveðnum svæðum byggingarinnar þar sem auðveldlega má velja saman þá skynjara sem eiga að tilheyra sama svæði í forriti stöðvarinnar.

 

Númerað brunaviðvörunakerfi hentar betur stórum byggingum en rásaskipt stöð. Við það kerfi geta tengst fleiri gerðir skynjara en við rásaskipt kerfi, t.d. ofurnæmir skynjarar. Hægt er að tengja inngangs- og útgangseiningar til stýringa, ásamt sírenum og blikkljósum á skynjaraslaufur.

Hægt er að tengja saman margar númeraðar brunastöðvar saman á neti þannig að þær myndi eitt heilstætt kerfi. Hægt er að framkvæma allar notendaaðgerðir á hvaða stöð sem er og þær sýna allar sömu boð. Við númeraðar brunastöðvar er einnig hægt að tengja prentara og skjámyndakerfi sem sýna á myndrænan hátt staðsetningu eldboða og gefa allar aðrar upplýsingar um stöðu kerfisins.

Við allar númeraðar brunastöðvar er hægt að tengja útstöðvar/herma. Á útstöðvum er mögulegt að sjá alla virkni brunaviðvörunarkerfisins, svo sem eldboð og bilanir. Einnig er mögulegt að stöðva hljóðgjafa á útstöð ásamt því að endurstilla kerfið eftir boð.

Hægt er að tengja þráðlausar einingar (skynjara, sírenu, blikkljós og stýrieiningar) við brunastöðina þar sem það hentar, t.d. þar sem ekki er hægt með góðu móti að koma við lögnum eða þær of kostnaðarsamar. Hægt er að blanda saman víruðum og þráðlausum einingum í sama kerfi.

Ef húsnæði er mjög stórt er brunastöðin gjarnan staðsett í tæknirými. Útstöðvar eru þá staðsettar við aðra innganga, t.d. starfsmannainngang eða hjá aðkomu slökkviliðs.