Farandgæsla

FarandgæslaÞegar Securitas var stofnað 1979, byggði starfsemin eingöngu á hefðbundinni farandgæslu. Segja má að farandgæslan hafi skapað grunn að öðrum þjónustuþáttum fyrirtækisins auk þess að vera grunnurinn að því viðbragðsafli sem fyrirtækið byggir á vegna boða frá öryggiskerfum sem eru tengd stjórnstöð fyrirtækisins.

Fyrirtækið er með tugi öryggisvarða í farandgæslu á Höfuðborgarsvæðinu. Þeir sinna eftirlitsverkefnum í öryggisgæslu allan sólarhringinn, alla daga ársins fyrir fjölda fyrirtækja og stofnana.

 

Farandgæsla felur í sér að öryggisvörður hefur í sinni umsjá, tiltekinn fjölda fyrirtækja og stofnana innan ákveðins borgarhluta sem telst til hans vaktsvæðis. Verklag og starfsaðferðir farandgæslu taka mið af þjónustusamningi auk þess sem þjónustan er framkvæmd í samráði við áherslur þjónustukaupa, til að tryggja að væntingar séu í samræmi við framkvæmdina. Ítarleg verklýsing er samin fyrir hvert verkefni í farandgæslu, en verklýsingar eru unnar í náinni samvinnu við þjónustukaupa.

Öryggisverðir farandgæslu hafa hlotið víðtæka þjálfun, m.a. vegna umgengni við hvers konar öryggiskerfi og áherslna sem byggt er á vegna fyrirbyggjandi eftirlits við mismunandi aðstæður, auk þjálfunar í skyndihjálp, meðferð handslökkvibúnaðar og viðbrögðum við hvers konar frávikum í öryggislegu tilliti. Þjálfun öryggisvarða byggir auk þess bæði á símenntun varðandi þau öryggiskerfi sem fyrirtækið selur og þjónustar auk framhaldsnámskeiða sem er ætlað að auka hæfni öryggisvarða til að sinna starfi sínu á faglegan hátt og tryggja sem best eigið öryggi í starfi.

Starf öryggisvarða í farandgæslu er fjölþætt. Farandgæslan byggir á að farnar eru eftirlitsferðir um fyrirtækið, utan sem innan, og með því farið yfir að allur frágangur sé í lagi. Þegar öryggisvörður fer inn í fyrirtæki er það hlutverk hans að yfirfara að frágangur sé í samræmi við verklagsreglur og óskir verkkaupa. Má þar nefna sem dæmi; frágangur véla og rafmagnstækja sé í lagi, frágangur á hurðum og opnanlegum gluggafögum sé góður, skrúfað sé fyrir rennandi vatn og að annar frágangur sé í samræmi við áherslur og óskir þjónustukaupa.

Algengt er að öryggisverðir farandgæslu sjái um að fara ítarlega eftirlitsferð í fyrirtækjum í lok dags, þannig að tryggt sé að frágangur sé í lagi fyrir nóttina og áður en öryggiskerfi eru varðsett. Þetta eru eftirlitsferðir sem koma sér einkar vel í fyrirtækjum þar sem óljóst er hver ber ábyrgð á frágangi í lok dags.

Sérþekking og þjálfun öryggisvarða Securitas varðandi aðstæður og áhættur í öryggislegu tilliti tiltekins viðskiptavinar standa að baki gluggamerkinga Securitas um að fyrirtæki sé „vaktað“.

Eitt af meginhlutverkum öryggisvarða í farandgæslu er að sinna útköllum vegna boða frá öryggiskerfum. Stjórnstöð Securitas hefur yfirsýn yfir fjölda öryggisvarða farandgæslu og staðsetningu þeirra hverju sinni með aðstoð ferilvöktunarbúnaðar. Með þeirri yfirsýn er stjórnstöð í lófa lagið að stýra öryggisvörðum í útköll vegna boða frá öryggiskerfum eða ef aðstoðar er þörf. Öflugt fjarskiptakerfi og neyðarkerfi, TETRA, tryggir hámarksöryggi í samskiptum.

Innra gæðaeftirlit Securitas fer yfir alla þætti í starfi öryggisvarða. Það aðhald tryggir að farið sé eftir verklagsreglum og að þjónustan sé í samræmi við væntingar þjónustukaupa.